top of page

Þróttarar í fyrsta leik

Updated: May 5


Á föstudagskvöld rúllar Lengjudeildin af stað og okkar menn mæta í Laugardalinn þar sem Þróttarar munu taka þétt á móti okkur. Leikurinn hefst 19:15 og verður spilaður á gamla Valbjarnarvellinum bakvið stúku þjóðarleikvangsins. Við hvetjum auðvitað alla Leiknismenn til að mæta og hjálpa Fúsa og strákunum að byrja tímabilið á góðum nótum. Í röðum Þróttar má finna nokkra dáða Leiknismenn en þeir Þórður Einarsson og Örn Þór Karlsson sjá um þjálfun hjá félaginu auk þess sem BB King, Birkir Björnsson, bróðir Sindra, hefur alið manninn í Laugardalnum síðan í fyrra. Innan raða Leiknis má finna Róbert Hauksson sem kom úr hinni áttinni fyrir síðasta leiktímabil. Þróttarar stoppuðu stutt við í 2. deild í fyrra eftir að hafa verið í basli í nokkur ár í Lengjudeildinni fyrir það og eru nú mættir í stuði í ástríðudeildina, tilbúnir að gera okkar mönnum lífið leitt í fyrsta leik. Spá þjálfara og fyrirliða í deildinni bendir þó til þess að þeir komi til með að vera í basli aftur en þeim er spáð 11. og næstneðsta sætinu í sumar.Eigendur Ölvers í Glæsibæ eru miklir Þróttarar og bjóða allt Leiknisfólk velkomið í upphitun fyrir leikinn. Miðasala á leikinn er hafin gegnum Stubbsappið og bendum við öllum á að nýta sér það óspart.

Sjáumst í Laugardalnum!

#StoltBreiðholts

4 views0 comments
bottom of page